Viðskipti innlent

Minni útgáfa íbúðabréfa í ár en áætlað var

Líklegt er að útgáfa íbúðabréfa reynist talsvert minni á þessu ári en áætlun Íbúðalánasjóðs (ÍLS) frá apríl síðastliðnum gerði ráð fyrir. Sjóðurinn sendi í morgun frá sér tilkynningu um að ekki yrði farið í frekari útgáfu íbúðabréfa á öðrum ársfjórðungi, enda verður botninn sleginn í fjórðunginn í lok dagsins í dag.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínui. Þar segir að ÍLS hafði áætlað að gefa út íbúðabréf fyrir 8 - 10 milljarða kr. á fjórðungnum, en þegar upp er staðið nemur útgáfan tæpum 7 milljörðum kr. Segir sjóðurinn að útlán hafi reynst minni á tímabilinu en ráð var fyrir gert og að lausafjárstaðan hafi verið góð.

Von er á endurskoðaðri útgáfuáætlun ÍLS um miðjan næsta mánuð. Áætlunin frá í apríl gerði ráð fyrir að útgáfa ársins yrði á bilinu 33 - 38 milljarðar kr., og þar af yrðu 19 - 22 milljarðar kr. gefnir út á seinni hluta ársins.

Greining telur að áætluð útgáfa verði minni í hinni endurskoðuðu áætlun, enda umsvif á íbúðamarkaði afar lítil um þessar mundir. Á fyrri hluta ársins voru gefin út íbúðabréf fyrir tæpa 13 milljarða kr. og er ekki úr vegi að ætla að útgáfan á seinni árshelmingi verði á svipuðum nótum.

Minna framboð íbúðabréfa ætti að hafa áhrif til lækkunar á ávöxtunarkröfu þeirra, auk þess sem meira rými ætti að skapast fyrir aðra útgefendur verðtryggðra skuldabréfa að finna kaupendur að bréfum sínum á ásættanlegri kröfu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×