Viðskipti innlent

Búið að endurgreiða 33.500 þýskum Edge eigendum

Nú er búið að endurgreiða rúmlega 33.500 þýskum eigendum Edge reikninga það sem þeir áttu inni hjá Kaupþingi í Þýskalandi. Heildarupphæðin nemur 320 milljónum evra eða um 57 milljarða kr.

Þetta kemur fram í uppfærðri skýrslu skilanefndar Kaupþings til kröfuhafa sem birt er á vefsíðu skilanefndarinnar. Þar segir ennfremur að aðeins eigi eftir að gera upp við 800 reikningseigendur en það uppgjör hafi tafist vegna þess að eignarhald þeirra hafi ekki fengist staðfest eða rangra persónulegra upplýsinga.

Þá kemur einnig fram í skýrslunni að skilanefndin hefur lokið endurskipulagningu á rekstri Huurre Group sem er staðsett í Finnlandi og er einn af stærstu framleiðendum Norður-Evrópu á frysti- og kæligeymslum. Kaupþing hefur framlengt lánasamningum sínum við fyrirtækið og er fjármögnun þess nú tryggð til ársins 2012. Kaupþing er nú eigandi alls hlutafjár í Huurre Group.

Huurre Group var með rúmlega 1.400 starfsmenn um síðustu áramót og sala þess nam rúmlega 290 milljónum dollara eða um 37 milljörðum kr. á síðasta ári.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×