Viðskipti innlent

Hátt í tugur fjárfesta hefur áhuga á að kaupa Sjóvá

Hátt í tugur íslenskra og erlendra fjárfesta og fyrirtækja hefur lýst yfir áhuga á að kaupa Sjóvá þegar það verður sett í sölu, líklega í haust.

Tryggingafélagið Sjóvá er nú á forræði skilanefndar Glitnis enda hafa eignir Sjóvár rýrnað mjög og eru minni en skuldir félagsins. Eins og fram kom í fréttum í gær er embætti sérstaks saksóknara að rannsaka umfangsmiklar fjárfestingar bræðranna Karls og Steingríms Wernerssona í gegnum Sjóvá og Milestone.

Sjóvá hefur meðal annars tapað 3,2 milljörðum íslenskra króna á því að rifta kaupum sínum á lúxusíbúðum í háhýsi skammt frá Hong Kong. Fjárfestingafélagið Milestone, sem er í eigu Wernersbræðranna, keypti Sjóvá árið 2006. Samkvæmt heimildum fréttastofu er nú búið að því að færa eignir inn í tryggingahluta Sjóvár til að tryggja tryggingareksturinn og koma þannig í veg fyrir að tap af fjárfestingum félagsins bitni á viðskiptavinum Sjóvár.

Meðal annars er búið að færa eignir sem áður voru undir Milestone samstæðunni inn í tryggingahluta Sjóvár. Þegar Sjóvá verður selt verður tryggingahluti félagsins síðan aðskilinn frá fjárfestingahlutanum, en þar eru einkum fasteignir víða um heim.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa uppundir tugur íslenskra og erlendra fjárfesta og fyrirtækja haft samband við skilanefnd Glitnis og lýst yfir áhuga á að kaupa hið nýja tryggingafélag sem verður stofnað á grunni þessa gamla og sett í sölu, líklega að loknum sumarleyfum í haust. Söluferlið verður opið og því öllum frjálst að bjóða í Sjóvá.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×