Viðskipti innlent

Raunlækkun íbúðaverðs á landinu öllu er 23% á einu ári

Undanfarna 12 mánuði hafa íbúðir á landinu öllu lækkað um 10,4% að nafnvirði og um 23% að raunvirði.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að íbúðaverð á landinu öllu hefur nú lækkað um tæplega 14% að raunverði það sem af er þessu ári samkvæmt mælingum Hagstofu Íslands sem birt var í gær. Að nafnverði nemur lækkun húsnæðisverðs á landinu öllu 8,3% á sama tímabili.

Mælingar Fasteignaskrár Íslands á þróun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu sýna sömu þróun en samkvæmt þeim mælingum hafa íbúðir á höfuðborgarsvæðinu verið að lækka um 10,5% að nafnvirði undanfarna 12 mánuði.

Tíðni makaskiptasamninga í fasteignaviðskiptum hefur aukist mikið undanfarna mánuði og er nú svo komið að makaskiptasamningar eru um helmingur allra fasteignaviðskipta á höfuðborgarsvæðinu og í kringum 15% allra fasteignaviðskipta á landsbyggðinni.

Fasteignaskrá undanskilur makaskiptasamninga við útreikning á vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæði, og endurspeglar vísitalan því verð í beinum viðskiptum þar sem greiðsla kemur fyrir fasteign.

Hagstofan tekur hinsvegar mið af makaskiptasamningum í sínum útreikningum en ef hluti verðs er greiddur með öðru en peningum er sá hluti núvirtur með ákveðinni ávöxtunarkröfu sem er endurskoðuð mánaðarlega.

Búast má við að íbúðaverð haldi áfram að lækka á næstu misserum enda eru allar aðstæður á íbúðamarkaði nú afar mótdrægar. Þannig hefur eftirspurn dregist saman í kjölfar minnkandi ráðstöfunartekna, þrengri lánamöguleika og óvissu á vinnumarkaði. Samhliða minnkandi eftirspurn eykur svo mikið framboð á nýju íbúðarhúsnæði sem safnast hefur upp í góðæri undanfarinna ára þrýsting á verðlækkanir íbúða.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×