Viðskipti innlent

Spáir óbreyttum stýrivöxtum

Gunnar Örn Jónsson skrifar
Seðlabankinn tilkynnir stýrivaxtaákvörðun sína á fimmtudaginn.
Seðlabankinn tilkynnir stýrivaxtaákvörðun sína á fimmtudaginn.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands birtir ákvörðun um stýrivexti á fimmtudag. Hagfræðideild Landsbankans spáir því að nefndin ákveði að halda stýrivöxtum óbreyttum í 12%.

Gangi þessi spá eftir er ljóst að róðurinn þyngist enn við endurfjármögnun erlendra skulda fyrirtækja og einstaklinga, en við núverandi aðstæður ráða vextir á innlánum í Seðlabanka miklu um fjármögnunarkostnað banka og vexti í kerfinu.

Mikill þrýstingur hefur verið af hálfu atvinnurekenda, launþegasamtaka og fjármálastofnana á Seðlabankann að lækka stýrivexti og innlánsvexti hraðar og draga þar með úr fjármagnskostnaði bankakerfisins og lánþega þess.

Seðlabankinn rekur hinsvegar afar aðhaldsama peningastefnu, með þeim rökum að hún sé ill nauðsyn til að treysta gengi krónunnar og búa í haginn fyrir afnám fjármagnshafta síðar á þessu ári. Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands birtir ákvörðun um stýrivexti á fimmtudag og spáir hagfræðideildin því aið Seðlabankinn haldi stýrivöxtum óbreyttum eins og áður segir.

Við síðustu vaxtaákvörðun lækkuðu stýrivextir um 1 prósentustig og innlánsvextir stóðu í stað. Áhyggjur Seðlabankans af þróun verðlags og gengi íslensku krónunnar réðu þá mestu um ákvörðun peningastefnunefndar og hvort tveggja hefur þróast á verri veg en vonast var til.

Spá hagfræðideildar má í heild sinni sjá hér.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×