Viðskipti innlent

Gengi jensins hefur hækkað um 86% frá því í fyrra

Gengisþróun erlendra gjaldmiðla hefur verið með æði misjöfnu móti síðustu misserin. Ef miðað er við meðalgengi gjaldmiðla fyrstu níu mánuði síðasta árs þá hefur gengi japanska jensins hækkað mest eða um rúm 86%.

Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans. Þar segir að dollarinn og svissneski frankinn koma svo á eftir með 62-68% hækkun. Ásamt evru mynda jenið og frankinn þá körfu sem flest gengistryggð lán eru miðuð við og eru áhrif gengislækkunarinnar því hlutfallslega svo sterk á stöðu skuldara.

Minnst hafa sænska krónan og sú norska hækkað gagnvart þeirri íslensku eða um 32-37%. Frá áramótum hefur breytingin á gengi gjaldmiðla verið á bilinu 0% til rúmra 5% ef frá er talin breytingin á gengi sterlingspundsins og norsku krónunnar, en pundið er nú tæplega fimmtungi dýrara en um áramótin og norska krónan rúmum 13% dýrari.

Það sem af er júní mánaðar hefur krónan gefið nokkuð eftir, mest gagnvart pundinu, 6,6% en minnst gagnvart sænsku krónunni 1,6%.

 










Fleiri fréttir

Sjá meira


×