Innlent

Forsætisráðherra krafði unglinga um spurningalista fyrir viðtal

Ungmennaráð Reykjavíkurborgar sendi forsætisráðherra Íslands, Jóhönnu Sigurðardóttur, spurningalista fyrirfram vegna viðtals unglinganna við ráðherrann sem verður sýnt í Kastljósi í kvöld. Þetta staðfestir ritstjóri Kastljóss, Þórhallur Gunnarsson í viðtali við Vísi.

Hann segist hafa heyrt af þessu eftir að viðtalið var tekið en Kastljós hafði ekki milligöngu um að listinn var sendur. Aftur á móti hafði þátturinn milligöngu um að unglingarnir gætu hitt forsætisráðherrann og tekið viðtalið.

Þórhallur segir þetta á skjön við vinnureglur þáttarins og að ráðuneytið sjálft þurfi að svara því hvers vegna listinn var sendur fyrirfram en slíkt tíðkast ekki í viðtölum í dag en gerði fyrir fjömörgum árum og þótti afar umdeilt.

Það eru tvær 16 ára unglingsstúlkur sem tóku viðtalið við ráðherrann.

Viðtalið verður sýnt í Kastljósi í kvöld sem hefst upp úr hálf átta eftir kvöldfréttir RÚV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×