Viðskipti innlent

Seðlabankinn boðar útflytjendur til viðtals

Sérfræðingur Seðlabanka Íslands segir að slök skil á gjaldeyri geti seinkað vaxtalækkunarferli Seðlabankans.
Sérfræðingur Seðlabanka Íslands segir að slök skil á gjaldeyri geti seinkað vaxtalækkunarferli Seðlabankans. Mynd/Heiða

Seðlabanki Íslands hyggst boða tíu til tuttugu stærstu útflutningsfyrirtæki landsins á fund til að fara yfir gjaldeyrisviðskipti þeirra. „Við munum setjast niður með þeim og fara yfir þeirra viðskipti,“ segir Tómas Örn Kristinsson, framkvæmdastjóri upplýsingasviðs Seðlabanka Íslands.

Hann segir að bankinn muni fara yfir viðskipti einstakra fyrirtækja og ræða við þau um hvað að baki liggur. Hann bendir á að ýmislegt geti haft áhrif á gjaldeyris­tekjur, svo sem verðþróun afurða og aflabrögð. Hann segir að Seðlabankinn hafi sögulegt yfirlit yfir gjaldeyrisviðskipti fyrirtækjanna sem notað sé til að bera saman við þróun síðustu mánaða.

Tómas segir að grunur sé um að fyrirtæki geymi gjaldeyri á erlendum reikningum í stað þess að flytja hann til Íslands. Aðspurður segir hann það geta verið ákaflega dýrkeypt og mikið áhyggjuefni ef útflytjendur skili ekki gjaldeyri til landsins. Það haldi aftur af styrkingu krónunnar og seinki vaxtalækkunarferli Seðlabankans.

Þrír starfsmenn Seðlabanka Íslands fást einvörðungu við mál tengd gjaldeyrissvikum. Auk þess er starfsfólk Fjármálaeftirlitsins að rannsaka málið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×