Viðskipti innlent

Uppsagnir eða launaskerðing hjá ríkisstarfsmönnum boðaðar

„Einnig blasir við að launastefna ríkisins verður óhjákvæmilega að taka mið af því að launakostnaðurinn verður að lækka og að því verður ekki náð fram nema annað hvort með breyttum launatekjum eða fækkun starfsfólks," segir í skýrslu Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra um jöfnuð í ríkisfjármálum árin 2009 til 2013 sem lögð hefur verið fram á alþingi.

Í skýrslunni eru lagðir fram nokkrir punktar um útfærslu á þessari sparnaðarleið. Þar segir:

„Þá getur komið til álita að gera breytingar á fyrirkomulagi biðlauna hjá ríkisstarfsmönnum.

Ekki skal ráðið í störf sem losna hjá ráðuneytum og stofnunum ríkisins eða stofna til nýrra starfa nema brýna nauðsyn beri til.

Nýta skal mannauð og sérfræðiþekkingu innan ríkisins þannig að þekking og störf séu flutt á milli eftir áherslum og þörfum hverju sinni.

Ekki skulu ráðnir utanaðkomandi ráðgjafar í verkefni hjá ráðuneytum og stofnunum ríkisins nema brýna nauðsyn beri til og sérfræðiþekking sé ekki til staðar meðal ríkisstarfsmanna.

Ráðuneyti og stofnanir skulu án tafar taka til endurskoðunar aukagreiðslur starfsfólks sem er á föstum launum, s.s. fyrir setu í nefndum, ráðum og stjórnum, greiðslur vegna aksturssamninga og öðrum aukagreiðslum. Einnig ber að gera ráðstafanir til að draga umtalsvert úr ferðakostnaði og risnu miðað við undanfarin ár."

Þá er að finna í skýrslunni að öll áform ríkisstofnanna sem kosta meira en 50 miljónir kr. verði að bera undir fjármálaráðuneytið og fá heimild þess til verksins.

Hvað skatta varðar hafa þær ráðstafanir að mestu verið kynntar. Hinsvegar segir í skýrslunni þar til viðbótar að til athugunar er að hækka skatthlutfall lögaðila í átt að því sem gerist í flestum Evrópulöndum og miðað við það að skattur á hagnað félaga ásamt skatti á arð verði um það bil hinn sami og á launatekjur einstaklinga, endurskoða ýmsa frádráttarliði og þrengja heimildir til skattfrjálsrar móttöku á arði og söluhagnaði af hlutabréfum o.fl.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×