Viðskipti innlent

Margir fyrrum viðskiptavinir Spron fastir í viðskiptum hjá Kaupþing

Mörg dæmi eru um að fyrrverandi viðskiptavinir Spron séu fastir í viðskiptum hjá Kaupþingi. Þetta á við um þá sem eru með verðtryggða reikninga og svokallaða framtíðarreikninga.

Fréttastofu barst nýverið ábending frá fjölskyldu sem ætlar nú að flytja viðskipti sín yfir úr Kaupþingi til MP banka, sem hóf fyrir stuttu að bjóða upp á almenn bankaviðskipti. En ekki var hægt að flytja reikning sem er í eigu sautján ára sonar þeirra yfir, að sögn vegna þess að reikningurinn er bundinn fram að 18 ára aldri.

Ólafur Haraldsson, framkvæmdastjóri MP banka, segir að þetta eigi sérstaklega við um þá sem eru með verðtryggða reikninga.

Samkvæmt reglum Seðlabankans um verðtryggingu sparifjár er innlánsstofnunum aðeins heimilt að taka á móti sparifé gegn verðtryggingu ef innistæðan er bundin í 36 mánuði. Ólafur segir að fjölmargar kvartanir hafi borist vegna þessa.

Samkvæmt upplýsingum frá Kaupþingi er það ekki vilji bankans að halda neinum nauðugum í viðskiptum. Bankinn þurfi að fara að lögum. Í tilviki Spron ríki þó sérstakar aðstæður og ef fólk vilji færa verðtryggð innlán annað þurfi að tryggja að þau fari á sambærilega reikninga hjá viðtakandi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×