Viðskipti innlent

Enn nokkur verðbólga í pípunum

Gunnar Örn Jónsson skrifar

Greiningardeild Kaupþings segir enn nokkra verðbólgu í pípunum, m.a. vegna veikingar krónunnar og hækkunar á álögum hins opinbera.

Tólf mánaða verðbólga lækkar óverulega á næstu þremur mánuðum miðað við að gengi krónunnar veikist lítillega. Haldi gengi krónunnar áfram að veikjast mun tólf mánaða verðbólga í árslok verða talsvert hærri en vonir hafa staðið til.

Á hinn bóginn er ljóst að þegar krónan hættir að veikjast mun verðbólga stefna í núllið á örfáum ársfjórðungum.

Hafa ber í huga að spáin getur breyst þegar nær dregur verðmælingum Hagstofunnar, en þá munu t.d. liggja fyrir nánari upplýsingar um þróun krónunnar, eldsneytisverðs og húsnæðisverðs.

Vísitala neysluverðs hækkaði um 1,38% í júní samanborið við spá greiningar Kaupþings um 1,1% hækkun. Spár helstu greiningaraðila voru á bilinu 0,9-1,2%.

Tólf mánaða verðbólga er nú 12,2%, en var 11,7% mánuðinn á undan.

Aðal ástæður hækkunarinnar eru veiking krónu undanfarna mánuði, hærri opinberar álögur á áfengi og tóbak, og hærra heimsmarkaðsverð á eldsneyti.

Eldsneytisverðshækkunum er þó síður en svo lokið, því gera má ráð fyrir 0,30-0,35% hækkun eldsneytisverðs til viðbótar í júlí.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×