Viðskipti innlent

Sennilegt að gjaldeyrishöft verði milduð á næstu mánuðum

Greining Íslandsbanka telur sennilegt að gjaldeyrishöft Seðlabankans verði milduð á næstu mánuðum. Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningarinnar.

Eins og kunnugt er af fréttum í morgun ætlar Seðlabankinn ekki að aflétta gjaldeyrishöftunum að sinni en reiknað er með að áætlun um afléttingu þeirra verði eitt af höfuðatriðunum í viðræðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins við stjórnvöld í þessari viku og næstu.

Í Morgunkorninu segir að Seðlabankinn taki fram að unnið sé að áætlun um afnám núverandi gjaldeyrishafta í áföngum, en höftunum þarf að vera að fullu aflétt fyrir nóvemberlok árið 2010.

Hnykkir bankinn á því að eitt af megin viðfangsefnum yfirstandandi endurskoðunar stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) á efnahagsáætlun þeirra sé mat á því hvort forsendur séu að skapast fyrir því að hægt sé að gefa fjármagnsflutninga til og frá landinu frjálsa á ný.

„Í því efni togast væntanlega á annars vegar hættan á stórfelldum fjármagnsflótta og gengishruni ef farið verður of geyst í afléttingu hafta áður en trú á gjaldmiðlinum og íslensku efnahagskerfi hefur aukist á ný, og hins vegar þrýstingur á að höftunum verði aflétt fyrr en síðar þar sem þau standast ekki alþjóðasáttmála og ganga gegn meginstefnu AGS um frjálst flæði fjármagns milli aðildarlanda sjóðsins. Ekki er því ósennilegt að einhver skref verði stigin í átt til mildunar haftanna á næstu mánuðum, og munu línur væntanlega skýrast í því efni við lok yfirstandandi heimsóknar AGS," segir í Morgunkorninu.











Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×