Viðskipti innlent

Segir verðbólguna aukast í endurskoðaðri spá

Greining Íslandsbanka gerir ráð fyrir að vísitala neysluverðs hækki um 0,9% frá fyrri mánuði og að verðbólgan fari upp í 11,7% og hækkar lítillega en nú er hún 11,6%. Hagstofan birtir vísitöluna fyrir júnímánuð á miðvikudaginn kemur.

Þetta er hækkun frá fyrri spá greiningarinnar en áður gerði hún ráð fyrir 0,7% hækkun vísitölunnar á milli mánaða. Meiri verðhækkun eldsneytis, áfengis og tóbaks í kjölfar hækkunar opinberra gjalda veldur þar mestu um.

Þá gerir greiningin nú ráð fyrir að húsnæðisliður vísitölunnar muni lækka minna en við reiknuðum með áður. Nú gerum við ráð fyrir því að húsnæðisliðurinn lækki vístöluna um 0,1% á milli mánaða.



Á næstu mánuðum munu lækkandi húsnæðisverði og vaxandi slaki á vinnumarkaði sem og í hagkerfinu í heild draga úr verðbólguþrýstingi. Á móti vegur gengislækkun krónunnar og skattahækkanir stjórnvalda.

Enn eiga áhrif af hækkun opinberra gjalda á áfengi, tóbak og eldsneyti eftir að skila sér að fullu inn í vísitöluna og þá hefur verið tilkynnt að ýmsar matvörur verði færðar yfir í efra þrep virðisaukaskatts. Mun þetta taka gildi 1. september næstkomandi og er reiknað með að það valdi 0,25% hækkun á vísitölu neysluverðs.

Greining segir í Morgunkorni sínu að líklega sé aukin verðbólga nú á milli mánaða einungis tímabundið bakslag en verðbólgan hefur verið á niðurleið síðustu mánuði. Um áramótin síðustu mældist hún 18,6% og hefur því lækkað töluvert síðan. Vaxandi slaki í hagkerfinu með litlum sem engum launaþrýstingi, lækkandi íbúðaverði og almennt afar litlum eftirspurnarþrýstingi mun draga kraftinn úr verðbólgunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×