Viðskipti innlent

Icelandair nær efstu sætum í neytendaskýrslu

Óhætt er að segja að Icelandair sé sigurvegari nýrrar Neytendaskýrslu AEA, Sambands evrópskra flugfélaga. Í skýrslunni er kynnt frammistaða ervrópskra flugfélaga á síðasta vetri í fjórum mikilvægum þjónustuflokkum fyrir neytendur, þ.e. í fullnustu fluga, í stundvísi á styttri flugleiðum, í stundvísi á lengri flugleiðum og skilvísi farangurs.

Í tilkynningu segir að Icelandair sé í fyrsta sæti í fullnustu fluga með 100% árangur, í öðru sæti í stundvísi á lengri flugleiðum, með 86,5% árangur, í þriðja sæti í stundvísi á styttri og meðallöngum flugleiðum með 90,2% árangur og í sjötta sæti í skilvísi farangurs með 7,6/1000 seinkun farangurs. Könnunin nær til fimm mánaða tímabils frá nóvember til mars.

"Þetta er mjög ánægulegur árangur og hann kemur ekki á óvart því stundvísi okkar í vetur hefur verið sú besta í sögu Icelandair", segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair. "Við vorum heppin í vetur hvað varðar utanaðkomandi þætti sem hafa mikil áhrif, eins og veður, aðra flugumferð og bilanir.

En við höfum einnig gert átak til að auka stundvísi og á síðasta ári tók til starfa ný stjórnstöð Icelandair á Keflavíkurflugvelli, sem hefur það m.a. að markmiði að reka leiðakerfi félagsins frá degi til dags, fyrirbyggja hugsanlegar tafir og bregðast hratt við óvæntum uppákomum. Við sjáum góðan árangur af þessum breytingum eins og þessi samanburður evrópskra flugfélaga sýnir.

Góð stundvísi flugfélags byggir á samvinnu sterkrar liðsheildar og auk stjórnstöðvarinnar er þáttur áhafna um borð og viðhaldsstöðvar í þessum árangri stór," segir Birkir Hólm.

Stundvísi flugfélaga er mæld með þeim hætti að ef innan við 15 mínútur líða á milli áætlunartíma og raunverulegrar brottfarar frá hliði telst flugvélin hafa farið á réttum tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×