Viðskipti innlent

Norræn ofurtölvusetur á Íslandi til skoðunar

Þrjár norrænar stofnanir íhuga nú að koma á fót samnorrænum ofurtölvusetrum á Íslandi. Það er einkum hagstætt raforkuverð sem gerir Ísland að ákjósanlegum stað fyrir setrið að því er segir í grein um málið í Teknisk Ukeblad í Noregi.

Stofnanir þær sem vilja koma þessum tölvusetrum á fót á Íslandi eru Sigma Uninett í Noregi, Swedish National Infrastructure for Computing (SNIC) og Dansk Center for Scientific Computing (DCSC).

„Viðræður um málið hafa staðið um nokkurt skeið. Við erum ekki að tala um netþjónabú heldur stór ofurtölvusetur," segir Jacko Kostner hjá Sigma Uninett í samtali við Teknisk Ukeblad. „Við höfum ekki ákveðið neitt en málið mun skýrast í sumarlok."

Sigma Uninett, svipað og SNIC og DCSC, er félag sem sér norska ríkinu fyrir tæknibúnaði til að framkvæma flókna vísindalega útreikninga.

Ofurtölvusetur svipað því sem hugmyndir eru að setja upp á Íslandi eru til staðar í Danmörku. Noregi og Svíþjóð en rafmagnsreikningurinn við rekstur þeirra er alltof hár að mati þeirra sem reka þau. Í Danmörku er reikningurinn síðustu þrjú árin er orðinn jafnhár og það kostaði að byggja setrin á sínum tíma.

Rene Belsö hjá DCSC segir að ofurtölvusetur þeirra noti alltof mikið af rafmagni og fyrir Danina snúist málið fyrst og fremst um að fá meiri vinnu út úr setrunum fyrir minni straum. Kílówattstundin í Danmörku er á 1,35 dkr. Hlutur Íslands í ofurtölvusetri sem sett yrði upp hérlendis myndi vera ókeypis rafmagn til rekstur þess. Það myndi spara Dönum einum 27 milljónir danskra kr. eða um 650 milljónir kr.

Jacko Kostner segir að setrin sem þeir reka á fjórum stöðum í Noregi noti samanlagt eitt megawatt og sé rafmagnsreikningurinn fyrir þau 8-10 milljónir norskra kr. á ári eða um 160 til 200 milljónir kr.

Norðmenn munu ákveða í haust hvort þeir setji upp ofurtölvusetur á Íslandi. Ef Ísland verður fyrir valinu mun bygging setursins hefjast í apríl á næsta ári og það verður komið í fulla notkun næsta sumar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×