Viðskipti innlent

Nýtt fjármagn frá erlendum kröfuhöfum ólíklegt

„Markmið samningaviðræðna okkar er að bankarnir séu nægilega vel fjármagnaðir og þeir njóti alþjóðlegs trausts og virðingar. Síðast en ekki síst eru samningar við kröfuhafa lykilatriði," sagði Helga Valfells, aðstoðarmaður viðskiptaráðherra á fundi í Þjóðmenningarhúsinu um endurreisn bankakerfisins. Hún telur litlar líkur á því að erlendu kröfuhafarnir setji nýtt fjármagn inn í nýju bankana.

Þeir aðilar sem ríkið og opinberar stofnanir hér á landi eiga í samningaviðræðum við eru kröfuhafar bankanna þriggja, skilanefndirnar þrjár og kröfuhafanefndir. Auk þess hafa skilanefndirnar þrjá óháða ráðgjafa frá erlendum bönkum til að gæta hlutleysis og efla gagnsæi. Með þessu móti er talið að meiri sátt verði milli erlendra kröfuhafa og íslenska ríkisins.

Helga sagði ekki útilokað að erlendir kröfuhafar kæmu að nýju bönkunum sem eigendur. „Það kemur í ljós hvað erlendu kröfuhafarnir fá, þeir fá að minnsta kosti skuldabréf og jafnvel hlutafé í íslensku bönkunum. Ef þeir vilja ekki hlutafé þá kemur til greina að þeir fái skuldabréf í bönkunum sem eru umbreytanleg í hlutafé (e. convertible bonds)," sagði Helga sem tók ennfremur fram að viðræðum við erlenda kröfuhafa miðaði vel. Samningaviðræðurnar hófust 12. júní og hún vonast til að viðræðunum ljúki 17. júlí.

Aðspurð um það hvort hér yrðu þrír bankar til frambúðar sagði Helga að það yrði að koma í ljós með tíð og tíma þegar línur fara að skýrast í efnhagslífinu. „Það er að minnsta kosti lítill áhugi hjá kröfuhöfum að setja fjármagn inn í nýju bankana. Því tel ég mjög ólíklegt að þeir komi inn í bankana að öðru leyti en í formi umbreytanlegra skuldabréfa eða hlutafjár sem þeir fá þá á móti sínum kröfum", segir Helga Valfells.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×