Viðskipti innlent

Ríkiseignafélagið á síðustu metrunum

Bankasérfræðingurinn Mats Josefsson gagnrýndi í gær hversu langan tíma það hefði tekið að koma eignaumsýslufélagi á laggirnar.
Bankasérfræðingurinn Mats Josefsson gagnrýndi í gær hversu langan tíma það hefði tekið að koma eignaumsýslufélagi á laggirnar. Mynd/Anton

„Það er verið að undirbúa stofnun félaganna samhliða því sem fjallað er um málið á Alþingi. Félögin verða að taka til starfa sem fyrst,“ segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra um stofnun eignarhaldsfélags og bankaumsýslu sem halda á utan um hlut ríkisins í bönkunum og veita ráðgjöf um þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki.

Mats Josefsson, ráðgjafi ríkisstjórnarinnar um endurreisn bankakerfisins, gagnrýndi stjórnvöld fyrir seinagang á síðum Fréttablaðsins í gær. Undraðist hann hversu langan tíma það tæki að koma félögunum á koppinn.

„Hvorutveggja eru þetta brýn mál,“ segir Steingrímur og bætir við að þegar ný ríkisstjórn hafi tekið við hafi ekkert legið fyrir um framtíð bankanna. Reynt hafi verið að hraða málinu eftir því sem hægt var og sé það nú á síðustu metrunum. Reikna megi með því að annað frumvarpanna verði að lögum í næstu viku.

Steingrímur gat ekki sagt til um hvenær auglýst yrði í stöður en reiknaði með að það yrði fljótlega eftir að málin væru í höfn. „Það verða gerðar stífar menntunar- og hæfniskröfur,“ segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×