Viðskipti innlent

Hallinn á kortajöfnuði fer snarminnkandi

Bilið á milli kortaveltu útlendinga hérlendis og Íslendinga í útlöndum hefur snarminnkað frá því í fyrra.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu og vitnar í hagtölur Seðlabankans. Seðlabankinn birtir sundurliðun á kortaúttektum vegna erlendra greiðslukorta hérlendis, og endurspeglar hún væntanlega að langmestu leyti útgjöld erlendra ferðamanna hér á landi.

Greiningin segir fróðlegt að er bera saman þær tölur annars vegar, og erlenda kortaveltu Íslendinga hins vegar. Enn sem komið er slær kortanotkun landans í útlöndum út erlenda kortanotkun hér á landi. Það bil hefur þó minnkað mikið eftir hrun krónu og hluta fjármálakerfisins á seinni hluta síðasta árs.

Það sem af er ári hefur halli á þessum kortajöfnuði milli landa numið að jafnaði 1,7 milljörðum kr. á mánuði, en í fyrra var hallinn að meðaltali ríflega 3 milljarða kr. í mánuði hverjum. Hér verður raunar að hafa í huga að erlendir ferðamenn kunna að beita kortum sínum í minna mæli hér á landi en við Íslendingar gerum erlendis, enda kortanotkun óvíða jafn allsráðandi sem greiðslumáti einstaklinga og hér á landi.

Þróunin er þó ótvíræð vísbending um þróun til betri vegar á þeim hluta þjónustujafnaðar sem á rót í ferðamannastraumi á milli landa.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×