Viðskipti innlent

Lengstu ríkis/íbúðabréfin falla töluvert í verði

Lengstu flokkar ríkisbréfa og íbúðabréfa hafa fallið töluvert í verði undanfarna sjö daga. Þannig hafa lengstu ríkisbréfin (RB19 og RB25) fallið um 3,4-3,5% og lengstu íbúðabréfin (HFF34 og HFF44) um 4-4,2%.

Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans. Þar segir að ávöxtunarkrafa allra ríkisbréfa og íbúðabréfa hélt áfram að hækka í gær. Hækkunin á ávöxtunarkröfu íbúðabréfa var á bilinu 2 til 13 punktar á sama tíma og ávöxtunarkrafa ríkisbréfa hækkaði um 8 til 18 punkta.

„Ekki er ólíklegt að þessar miklu sviptingar sé í tengslum við stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans sem kynnt verður á fimmtudaginn kemur," segir í Hagsjánni.

Yngvi Örn Kristinsson forstöðumaður hagfræðideildarinnar segir að þetta komi ekki á óvart því lengri bréfin séu viðkvæm fyrir vaxtabreytingum. „Það er óvissan um hvað gerist á fimmtudag sem veldur þessu verðfalli," segir Yngvi Örn.

„Í fyrstu töldu menn að stýrivöxtunum yrði haldið óbreyttum enda hefur verðbólgan aukist frá síðustu vaxtaákvörðun og gengi krónunnar veikst. Nú síðustu daga hafa menn svo verið að spá í að lítil vaxtalækkun verði niðurstaðan."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×