Lífið

Sigur Rós í maraþonmynd

Hljómsveitin Sigur Rós á lög í kvikmyndinni The Athlete.
fréttablaðið/gva
Hljómsveitin Sigur Rós á lög í kvikmyndinni The Athlete. fréttablaðið/gva

Lögin Starálfur og Viðrar vel til loftárása með Sigur Rós hljóma í myndinni The Athlete sem er væntan­leg í bíó síðar á þessu ári. Um leikna heimildarmynd er að ræða sem fjallar um eþíópíska maraþonhlauparann Abeke Bikila sem vakti heims­athygli þegar hann vann ólympíugull í Róm berfættur árið 1960, fyrstur Afríkubúa. Níu árum síðar lamaðist hann í alvarlegu bílslysi og barðist hetjulega við að ná heilsu á nýjan leik.

„Af hverju ekki?,“ segir Kjartan Sveinsson, hljómborðsleikari Sigur Rósar, spurður hvers vegna lögin voru seld í myndina. „Við gerum svona oft ef við fílum senurnar sem við sjáum. Þetta kom líka bara vel út.“

Sigur Rós átti síðast lag í heimildarmynd Leonardo DiCaprio, 11th Hour, sem fjallaði um umhverfismál. Áður hafa lög sveitarinnar hljómað í Vanilla Sky með Tom Cruise í aðalhlutverki, The Life Aquatic with Steve Zissou með Bill Murray og í stiklum fyrir myndirnar The Invasion og Children of Men. Einnig hefur Sigur Rós verið spiluð í sakamálaþáttunum CSI.

Kjartan segir að upptökur á næstu plötu Sigur Rósar gangi ágætlega en hann hefur ekki hugmynd um hvenær hún kemur út.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.