Viðskipti innlent

Landsvaki selur Skotum einn sjóða sinna á krónu

Landsvaki hefur selt skoska hlutafélaginu The Aurora Fund í Edinborg einn af sjóðum sínum, Landsbanki Private Equity Fund 1, og er kaupverðið ein króna.

Í tilkynningu til kauphallarinnar kemur fram að Aurora tekur yfir undirliggjandi eignir sjóðsins og á móti standa Skotarnir skil á greiðslum og vöxtum af skuldabréfum sem Landsbanki Private Equity Fund 1 hafði gefið út. Um er að ræða einn af þremur skuldabréfaflokkum sjóðsins en hinir tveir hafa þegar verið gerðir upp.

Samkomulag milli sjóðsins og kaupandans meðal annarra, um yfirtöku eigna sem felur m.a. í sér að kaupandinn samþykkir að yfirtaka allar undirliggjandi fjárfestingar og Evrureikning sjóðsins.

Ákvæðum samkomulagsins um yfirtöku hlutdeildarskírteina verður því aðeins fullnægt að þau skilyrði sem þar koma fram verði uppfyllt, eða að kaupandinn falli frá skilyrðum þessum í síðasta lagi á því tímamarki sem tilgreint er í samkomulaginu.

Ennfremur segir í tilkynningunni að umsamið kaupverð í samkomulaginu um yfirtöku eigna er háð ákvæðum þess og því að kaupandinn geri ekki kröfu vegna endurkaupa útistandandi tveggja skuldabréfaflokka sem útgefin eru af sjóðnum.

Hlynur Hreinsson hjá verðbréfamiðlun NBI segir að hér sé í raun verið að loka fyrrgreindum sjóði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×