Viðskipti innlent

Hlutafé aukið í Travel Service

Í dag var undirritað samkomulag um aukningu hlutafjár í Travel Service, dótturfélagi Icelandair Group í Tékklandi. Meðeigendur Icelandair Group, Unimex Group og Roman Vik skrá sig fyrir nýju hlutafé í félaginu og auka hlut sinn úr 34% í 49,9%.

Í tilkynningu segir að með hlutafjáraukningunni minnkar hlutur Icelandair Group úr 66% í 50,1%. Hækkunin hefur engin áhrif á rekstur Icelandair Group en eigið fé lækkar um 300 milljónir króna.

„Með þessari hlutafjáraukningu er verið að styrkja stöðu Travel Service. Rekstur félagsins hefur gengið vel á þessu ári og betur en áætlanir gerðu ráð fyrir. Við núverandi aðstæður í alþjóðlegum flugrekstri skapast ýmis tækifæri til vaxtar sem félagið er að skoða," segir Björgólfur Jóhannsson forstjóri Icelandair Group.

„Með hlutafjáraukningunni er félagið betur í stakk búið til að styrkja stöðu sína á markaðnum í nánustu framtíð."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×