Viðskipti innlent

deCode snýr aftur með trompi

Tvær jákvæðar fréttir af DeCode, móðurfélagi Íslenskrar erfðagreiningar, urðu til þess að gengi hlutabréfa fyrirtækisins rauk upp á bandarískum markaði í gær. Fréttablaðið/Stefán
Tvær jákvæðar fréttir af DeCode, móðurfélagi Íslenskrar erfðagreiningar, urðu til þess að gengi hlutabréfa fyrirtækisins rauk upp á bandarískum markaði í gær. Fréttablaðið/Stefán

Starfsmenn Íslenskrar erfðagreiningar hafa í samvinnu við sérfræðinga frá Danmörku og Hollandi uppgötvað fylgni á milli nýrnasteina og beinþynningar. Niðurstöður benda til að 60 prósent manna séu með erfðaefni sem auki líkurnar á að þeir fái nýrnasteina um 65 prósent. Líkur eru sömuleiðis á að genið valdi beinþynningu í mjöðm og mjóbaki kvenna.

Vísindamennirnir hafa skrifað grein um efnið sem birt verður í næsta tölublaði fagtímaritsins Nature Genetics. Hana má nú þegar nálgast á vef tímaritsins.

Þetta voru ekki einu fréttirnar sem fluttar voru af deCode í gær. Hlutabréf félagsins voru sömuleiðis endurskráð á aðallista bandaríska hlutabréfamarkaðarins Nasdaq.

Seint á síðasta ári kom í ljós að fyrirtækið uppfyllti ekki skilyrði fyrir skráningu á aðallista og var það flutt niður um nokkur þrep á Capital Market-lista í febrúar.

Gengi hlutabréfa í deCode rauk upp um 50 prósent við fréttirnar strax á föstudag og um allt að 117 prósent þegar best lét fyrir opnun markaða í gær og stóð í 65 sentum á hlut við upphaf viðskiptadagsins. Það hafði ekki verið hærra síðan í byrjun september í fyrra. Um það leyti fór það undir einn dal á hlut í annað sinn frá skráningu á hlutabréfamarkað vestra árið 2000. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×