Innlent

Björgunarmenn sóttu kindur

Björgunarsveitarmenn í Húnavatnssýslu sóttu fyrir helgi kindur upp á hálendið norðvestur af Langjökli en neyddust til að skilja eitt lamb eftir, sem komst undan.

Fréttavefur Húnvetninga segir að félagar úr Björgunarfélaginu Blöndu hafi sótt sauðfé í Oddnýjargil sem er norðvestan við Langjökul en sést hafði til fjárins í síðasta mánuði. Ferðalagið tók 13 klukkutíma og náðust tvær kindur af þremur. Kindurnar munu vera frá Akri í Húnavatnshreppi.

Það voru rjúpnaskyttur sem sáu féð og leitaði Fjallaskilanefnd Húnavatnshrepps til björgunarsveitarinnar um aðstoð við að koma þeim til byggða. Fóru fimm björgunarsveitarmenn ásamt einum hundi á fjórhjólum upp að Langjökli og fundu kind með tveimur lömbum. Um tvo og hálfan tíma tók að eltast við þær en á endanum náðist kindin og annað lambið og gekk greiðlega að koma þeim til byggða. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort farinn verði annar leiðangur til að ná í lambið sem eftir varð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×