Viðskipti innlent

Veruleg inngrip Seðlabankans gjaldeyrismarkaði í júní

Nettósala Seðlabankans á gjaldeyri nam 2,5 milljörðum kr. í síðasta mánuði, sem jafngildir ríflega 40% af heildarveltu á markaðinum. Seðlabankinn hefur ekki selt meiri gjaldeyri í einum mánuði það sem af er ári.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að í nýlega birtum tölum Seðlabankans um millibankamarkað með gjaldeyri á fyrri helmingi ársins kemur fram að heildarvelta á þeim markaði nam tæplega 6,2 milljörðum kr. í júní. Er það mesta velta í einum mánuði það sem af er ári, sem kemur ekki á óvart í ljósi verulegra vaxtagreiðslna til útlendinga í mánuðinum

Seðlabankinn hefur verið býsna umsvifamikill á millibankamarkaði með gjaldeyri undanfarna mánuði. Gjaldeyrissala hans hefur þó ekki megnað að vega gegn gjaldeyriskaupum annarra á markaði, þrátt fyrir umtalsverðan afgang af vöru- og þjónustuviðskiptum á fyrri hluta árs..

Þegar Seðlabankinn beitir sér á gjaldeyrismarkaði selur hann jafnan 250.000 evra til hvers viðskiptavakanna þriggja, Íslandsbanka, Landsbankans og Kaupþings. Út frá þeirri staðreynd, nettósölu bankans á gjaldeyri og meðalgengi evru gagnvart krónu í hverjum mánuði má gróflega áætla fjölda inngripa bankans í mánuði hverjum.

Með þeirri aðferð telst greiningunni til að inngrip Seðlabankans í júnímánuði hafi verið 19 talsins. Inngripin í einum mánuði hafa ekki verið fleiri það sem af er ári, en þrátt fyrir það veiktist krónan um ríflega 4% gagnvart evru í mánuðinum.

Væntanlega á útflæði vegna vaxtagreiðslna til útlendinga talsverðan hlut að máli í þeirri veikingu. Hins vegar var afgangur af vöruskiptum verulegur í júní, auk þess sem við teljum allar líkur á að þjónustuviðskipti hafi einnig skapað nettó gjaldeyrisinnflæði í mánuðinum vegna ferðamannastraums hingað til lands og mikillar fækkunar ferða Íslendinga erlendis frá fyrri árum.

Að öllu samanlögðu hefði þessi afgangur, auk inngripa Seðlabanka, átt að vega upp útflæði vegna vaxtagreiðslna og jafnvel gott betur. Það virðist því sem talsverð vanhöld séu enn á því að allar gjaldeyristekjur skili sér inn á gjaldeyrismarkað.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×