Viðskipti innlent

Nýtt Eimskip stofnað - verður 32% í eigu erlends félags

Eimskip áformar að stofna nýtt fjárhagslega öflugt flutninga- og vörustjórnunarfyrirtæki. Nýtt og endurreist félag verður að fullu í eigu lánardrottna Eimskips. Meðal þeirra er bandaríska fjárfestingarfélagið The Yucaipa Companies með um 32% eignarhlut sem jafnframt leggur félaginu til 15 milljónir evra.

Nýtt og endurskipulagt Eimskip mun einbeita sér að kjarnastarfsemi sinni. Með þessu á störfum 1.500 manns að vera borgið.

Í tilkynningu segir að fyrirætlanir þessar eru háðar samþykki lánardrottna Eimskips. Félagið mun leggja fram beiðni um nauðasamninga til héraðsdóms Reykjavíkur sem mun verða kynnt fyrir lánardrottnum.

Þetta mun ekki hafa áhrif á daglegan rekstur félagsins á sviði flutninga og vörustjórnunar. Greiðslur til birgja verða einnig með óbreyttum hætti.

Nýtt og endurreist félag verður að fullu í eigu lánardrottna Eimskips. Meðal þeirra er bandaríska fjárfestingarfélagið The Yucaipa Companies með um 32% eignarhlut sem jafnframt leggur félaginu til 15 milljónir evra.

Eimskip selur 49% hlutafjár í Versacold Atlas til Yucaipa, sem einnig hefur samið um kauprétt á 51% hlutafjár.

Eimskip hefur selt þrjú gámaskip sem gerð voru út frá Noregi.

Eimskip mun óska eftir heimild til nauðasamninga. Eimskip Ísland ehf. verður í meirihlutaeigu íslenskra lánardrottna

Eimskip hefur unnið með erlendum og innlendum ráðgjöfum frá því í október 2008 að fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins. Gríðarleg skuldsetning félagsins reyndist óviðráðanleg. Sú staða er afleiðing nokkurra illa ígrundaðra fyrirtækjakaupa erlendis og þeirri staðreynd að háar ábyrgðir féllu á félagið.

Samdráttaráhrif efnahagskreppunnar á mörkuðum innanlands og utan juku jafnframt vanda félagsins. Markmið stjórnar Eimskips er að hámarka endurgreiðslur til lánardrottna og tryggja áframhaldandi starfsemi á Íslandi og í Norður-Atlantshafi. Með þessu móti er einnig unnt að tryggja þau 1.500 störf sem nú eru hjá félaginu.

Eimskip Ísland ehf. verður að fullu í eigu lánardrottna þar af í meirihlutaeigu íslenskra lánardrottna:

Landsbanki Íslands hf. mun eignast um 40% í félaginu og NBI um 5%.

Yucaipa breytir útistandandi veðtryggðum kröfum í hlutafé og fjárfestir jafnframt 15 milljónir evra í félaginu og eignast þannig um 32% í fyrirtækinu.

Ríflega fimmtíu aðrir lánardrottnar eignast 23% í Eimskip Íslandi ehf. Flestir þeirra eru íslenskir sjóðir og skuldabréfaeigendur, þ.m.t. nokkrir lífeyrissjóðir.

Núverandi hluthafar félagsins verða ekki í eigendahópi Eimskips Íslands ehf og fulltrúar nýrra eigenda munu skipa nýja stjórn þess eftir endurskipulagningu.

Veðtryggðir lánardrottnar Eimskips, Yucaipa, skilanefnd Landsbankans og Íslandsbanki hf., styðja þessar tillögur. Skilanefnd Landsbankans og Íslandsbanki hf. hafa samþykkt að halda áfram fjármögnun sem lýtur að fasteignum Eimskips Íslands ehf.

Eimskip mun nú leita eftir heimild til nauðasamninga og mun óveðtryggðum lánardrottnum gefast tækifæri til að kynna sér þessar tillögur. Að því loknu verða óveðtryggðir lánardrottnar beðnir um að greiða atkvæði. Reiknað er með að þetta ferli geti tekið 8 - 10 vikur og vonast er til að endurskipulagningu félagsins verði endanlega lokið á haustmánuðum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×