Viðskipti innlent

Moody´s: Neikvæðar horfur fyrir íslenska bankakerfið

Matsfyrirtækið Moody´s segir að horfurnar fyrir íslenska bankakerfið séu áfram neikvæðar hvað varðar lánshæfi þeirra í grundvallaratriðum. Þetta sé einkum vegna þess mikla verkefnis sem er framundan við að endurbyggja bankakerfið.

Moody´s gefur íslensku bönkunum ekki sérstaka lánshæfiseinkunn í fréttatilkynningu sinni um málið enda er endurskipulagningu bankanna ekki lokið og því áfram óvissa um hvernig efnahagsreikningur þeirra muni líta út.

Moody´s hefur töluverðar áhyggjur af gæðunum á eignasöfnum bankanna í framtíðinni. „Íslenska lánaumhverfið hefur veikst verulega sem sést af því að gjaldþrot fyrirtækja hafa tvöfaldast á fyrstu fjórum mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra," segir í tilkynningunni.

Þar að auki er nefnt til sögunnar að geta íslenskra heimila til að standa undir skuldum sínum fari síminnkandi vegna atvinnuleysis, lækkandi fasteignaverðs og veikari krónu. „Því reiknum við með lánavandamál muni fara vaxandi til skemmri tíma," segir Kimmo Rama greinandi hjá Moody´s.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×