Viðskipti innlent

Frávísunarkröfunni synjað - aðalmeðferð fer fram í haust

Jón Ásgeir Jóhannesson
Jón Ásgeir Jóhannesson
Héraðsdómur Reykjavíkur synjaði í morgun frávísunarkröfu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og annarra vegna meintra skattalagabrota í Baugsmálinu svokallaða. Aðalmeðferð í málinu fer fram í haust.

Í desember á síðasta ári gaf Ríkislögreglustjóri út ákæru á hendur Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Kristínu systur hans, Tryggva Jónssyni, Baugi og Gaumi fyrir meint skattalagabrot á árunum 1998 til 2002.

Á meðal þess sem Jón Ásgeir er ákærður fyrir er að hafa komið sér undan því að greiða tæpar 30 milljónir króna í tekjuskatt, útsvar og fjármagnstekjuskatt.

Þeir ákærðu í málinu vildu meina að rannsókn á Baugsmálinu hefði staðið óhæfilega lengi yfir auk þess sem ríkislögreglustjóri hefði ekki lagt sjálfstætt mat á rannsóknina. Einnig vildu þau meina að Helga Magnúsi Gunnarssyni saksóknara efnahagsbrota yrðir gert að víkja sæti við rannsókn málsins. Sú krafa var rökstudd með því að saksóknarinn hefði verið svo viðriðinn rannsókn svonefnds Baugsmáls allt frá upphafi þess að hann væri vanhæfur til að stýra rannsókn þessa máls.

Héraðsdómur synjaði frávísunarkröfunni nú í morgun og fer aðalmeðferð í málinu fram í haust eins og fyrr segir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×