Viðskipti innlent

Íbúðaverð lækkað um tíund

Rúmur helmingur af þeirri lækkun húsnæðisverðs sem Seðlabankinn spáði frá hámarki er kominn fram.
Rúmur helmingur af þeirri lækkun húsnæðisverðs sem Seðlabankinn spáði frá hámarki er kominn fram. Mynd GVA

Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hefur lækkað um 10,5 prósent síðustu 12 mánuði, samkvæmt nýbirtum tölum Fasteignaskrár.

Íbúðaverðið lækkaði um 0,7 prósent milli apríl og maí, en hálfsárslækkunin er 10,3 prósent.Í umfjöllun hagfræðideildar Landsbankans kemur fram að fjölbýli hafi lækkað um 1,6 prósent í maí, á meðan sérbýli hafi hækkað um 2,4 prósent.

„Umtalsvert meira flökt er á mánaðabreytingum vísitölunnar á sérbýli heldur en fjölbýli, en síðastliðna tólf mánuði hefur vísitalan fyrir sérbýli lækkað um sjö prósent en fyrir fjölbýli um 11,5 prósent,“ segir í umfjöllun deildarinnar.

„Íbúðaverð hefur þegar lækkað um um það bil 13 prósent að nafnvirði og tæplega 28 prósent að raunvirði frá því að það náði hámarki haustið 2007. Í grunnspá Seðlabankans er gert ráð fyrir að íbúðaverð muni lækka um um það bil 32 prósent að nafnvirði og 46 prósent að raunvirði frá 2007 til 2011.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×