Viðskipti innlent

Munur á gengi krónunnar innan- og utanlands hefur minnkað

Munurinn á gengi íslensku krónunnar á innlendum gjaldeyrismarkaði og aflandsmarkaði hefur minnkað aftur eftir að hafa aukist fyrstu mánuði ársins og voru viðskipti með krónuna á genginu 200-201 gagnvart evru á aflandsmarkaðinum, eða á u.þ.b. 23% lægra gengi en á innlendum gjaldeyrismarkaði.

Þetta kemur fram í fundargerð peningastefnunefndar frá síðasta stýrivaxtafundi hennar þann 7. maí s.l. Þar segir einnig að gengi íslensku krónunnar hefur verið tiltölulega stöðugt frá fundi peningastefnunefndarinnar í apríl. Gengisvísitala miðað við víða vöruviðskiptavog var 0,6% hærra 5. maí en það var þegar tilkynnt var um síðustu stýrivaxtaákvörðun 8. apríl.

Þar segir ennfremur að skuldatryggingarálag á ríkissjóð Íslands hafði lækkað nokkuð. Það var áfram hátt, tæplega 8%. Hinsvegar lágu lítil viðskipti þar að baki og líklegast er að ekki einungis landaáhætta heldur einnig einkenni skuldatryggingarmarkaðarins hafi áhrif á álagið.

Skammtímavextir í helstu viðskiptalöndum Íslands höfðu lækkað um 1,0 prósentu frá stýrivaxtaákvörðuninni í apríl. Munurinn á innlendum stýrivöxtum og stýrivöxtum Evrópska seðlabankans hafði minnkað um 2,50 prósentur í 11,7 prósentur.

Fyrstu vikuna í maí var munur þriggja mánaða millibankavaxta gagnvart evru að meðaltali um það bil 2 prósentum minni en fyrstu vikuna í apríl en var þó enn 11,5 prósentur.

Viðskipti á gjaldeyrismarkaðinum námu alls 1,2 milljarði kr. fyrstu vikuna í maí, samanborið við 1 milljarð kr. fyrstu vikuna í apríl. Þessar tölur sýna þó aðeins að þorri gjaldeyrisviðskipta viðskiptabankanna síðan millibankamarkaðurinn með gjaldeyri tók aftur til starfa í desember hafa farið fram innan hvers banka.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×