Viðskipti innlent

Fjárvakur semur við Air Baltic um tekjubókhald

Lettneska flugfélagið Air Baltic og Fjárvakur, í gegnum dótturfélag sitt Airline Services Estonia, hafa skrifað undir fimm ára samning þar sem Air Baltic útvistar tekjubókhaldi félagsins ásamt rekstri og hýsingu tekjubókhaldskerfis frá og með 1. október 2009.

Í tilkynningu segir að Air Baltic flutti á síðasta ári tæplega 3 milljónir farþega og er í meirihlutaeigu lettneska ríkisins. Með samningnum við Air Baltic mun fjöldi farseðla sem unnir eru hjá félaginu rúmlega tvöfaldast en helstu viðskiptavinir í dag eru Icelandair, Estonian Air, SmartWings og City Airline.

Fjárvakur sem er dótturfélag Icelandair Group, hefur sérhæft sig í útvistun fjármálaferla frá árinu 2002 og er eitt stærsta fyrirtækið á Íslandi á þessu sviði. Hjá fyrirtækinu starfa yfir 100 starfsmenn á Íslandi og í Eistlandi. Félagið býður meðalstórum og stórum félögum alhliða bókhaldsþjónustu, launavinnslu, innheimtu og greiðslu reikninga auk tengdrar fjármálaþjónustu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×