Viðskipti innlent

Síminn gerir samning um þriðja sæstrenginn

Síminn hefur nú gert samning við Greenland Connect um sæstreng til Kanada. Síminn er eina íslenska fjarskiptafyrirtækið sem er með samninga um þrjá sæstrengi til og frá Íslandi og eykur þetta öryggi og bætir þjónustu enda er um fimmfalda aukningu á bandbreidd til Ameríku að ræða.

Í tilkynningu segir að Síminn sé fyrsta fyrirtækið sem gerir samning um bandvídd á Greenland Connect en sæstrengurinn var lagður í marsmánuði og er umferð á honum tiltölulega lítil enn sem komið er. Flutningur gagna um sæstrenginn þýðir að niðurhal frá Ameríku verður hraðara enda þurfa gögnin ekki að fara um Evrópu fyrst líkt og þegar þau fara um Farice eða Cantat-3.

Viðskiptavinir Símans eiga því möguleika á betri svartíma þegar þeir eiga samskipti vestur um haf og upplifa t.a.m. YouTube og önnur slík vefsvæði í bestu mögulegum gæðum.

Auk þess mun samningurinn bæta þjónustu við fyrirtæki sem eru með starfsstöðvar í Bandaríkjunum eða eiga mikil viðskipti þar. Síðast en ekki síst eykst öryggi viðskiptavina Símans því Síminn getur valið um að senda gögn um tvo sæstrengi ef samband rofnar við einn vegna bilunar.

„Það er mjög ánægjulegt að fyrsti samningur okkar við fjarskiptafyrirtæki um þjónustu á nýja sæstrengnum, Greenland Connect, skuli vera við Símann, sem er leiðandi fyrirtæki í fjarskiptum á Íslandi. Ég er þess fullviss að viðskiptavinir Símans muni finna fyrir því að bandbreiddin til og frá Ameríku verður mun meiri en þeir hafa áður þekkt," segir Brian Buus Pedersen, forstjóri Tele Greenland.

„Við erum afar ánægð með að geta boðið Íslendingum þetta aukna öryggi enda lítum við svo á að Síminn sinni mikilvægu öryggishlutverki. Hér er um að ræða glænýjan sæstreng sem er lagður töluvert eftir að Farice og Cantat-3 eru lagðir og því með allar nýjustu tækniútfærslur auk þess sem gert er ráð fyrir að hægt verði að stækka hann í framtíðinni. Með þessum sæstreng opnast Símanum margir valkostir sem verður spennandi að vinna úr," segir Sævar Freyr Þráinsson forstjóri Símans.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×