Viðskipti innlent

Úrvalsvísitalan hækkar milli fjórðunga í fyrsta sinn síðan 2007

Úrvalsvísitala kauphallarinnar hækkaði um 21,3% á öðrum ársfjórðungi en líta þarf til baka til 2. ársfjórðungs 2007 til að sjá síðast hækkun milli ársfjórðunga. Á fyrsta ársfjórðungi lækkaði úrvalsvísitalan um nærri 40% þannig að á fyrri árshelmingi lækkaði hún um fjórðung.

Fjallað er um málið í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans. Þar segir að heildarviðskipti á hlutabréfamarkaði námu 8,9 milljörðum kr. á öðrum ársfjórðungi í tæplega 9.000 viðskiptum samanborið við 13 milljarða kr. veltu á fyrsta ársfjórðungi og 330 milljarða kr. veltu á sama tímabili í fyrra.

Af þeim félögum sem eru í Úrvalsvísitölunni hækkaði gengi Atlantic Petroleum (72,7%), Össurar(28,8%) og Alfesca (27,3%) mest á öðrum ársfjórðungi en lagt hefur verið fram yfirtökutilboð í Alfesca eins og fram hefur komið í Hagsjá.

Mest lækkuðu svo Eimskipafélagið (-45,0%). Eimskip lagði fram í morgun hjá Héraðsdómi Reykjavíkur beiðni um heimild til að leita nauðasamninga, auk óskar um afskráningu úr Kauphöllinni. Næst mest lækkuðu Icelandair (-32,1%) og Bakkavör (-13,3%).








Fleiri fréttir

Sjá meira


×