Viðskipti innlent

Betri tíð endurspeglast í löngum skuldabréfum

þróun mála skýrð Þórarinn G Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, skýrir væntingar um langtímaverðbólgu á vaxtaákvörðunarfundi bankans. Fréttablaðið/GVA
þróun mála skýrð Þórarinn G Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, skýrir væntingar um langtímaverðbólgu á vaxtaákvörðunarfundi bankans. Fréttablaðið/GVA

Skuldabréfaútgáfa Lánasýslunnar er næstum jafn mikil nú og gert var ráð fyrir á árinu öllu. Hagfræðingur hjá Seðlabankanum segir hinu opinbera hafa gengið vel að fjármagna sig með skuldabréfaútgáfu.

„Það er mjög gott hvað ríkissjóði hefur gengið vel að fjármagna sig með útgáfu skuldabréfa," segir Björgvin Sighvatsson, hagfræðingur á alþjóða- og markaðssviði Seðlabankans.

Hann segir að enn sé unnið eftir áætlun í lánamálum ríkissjóðs um útgáfu ríkisskuldabréfa frá því í janúar þrátt fyrir rúma 170 milljarða króna halla á ríkissjóði.

Áætlunin í janúar var í samræmi við hreina fjárþörf ríkissjóðs þá, eða upp á 145 milljarða króna. Nú þegar árið er hálfnað er ríkissjóður búinn að gefa út skuldabréf fyrir 128 milljarða af þeim 145 sem fyrirhugað er að selja á árinu. Björgvin segir hluta af ástæðunni fyrir mikilli eftirspurn eftir ríkisbréfum þá að útgefendum skráðra skuldabréfa hafi fækkað og fáir kostir í boði.

Þá bætir hann við að helstu væntingar um efnahagslífið til lengri tíma endurspeglist í nýrri útgáfu ríkisbréfa með gjalddaga árið 2025 en það er lengsti skuldabréfaflokkur sem Seðlabankinn hefur gefið út fyrir hönd ríkissjóðs. Björgvin bendir á að kaupendur þeirra bréfa vænta þess að verðbólga haldist að jafnaði lág fram til 2025 og að efnahagslífið verði nokkuð stöðugt þangað til. Þá verða Icesave-skuldbindingar hins opinbera greiddar upp, gangi allt eftir. „Það mikilvægasta er að þeir telja ekki mikla áhættu felast í fjárfestingu óverðtryggðra ríkisskuldabréfa með löngum líftíma," segir Björgvin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×