Viðskipti innlent

Farið verður yfir tekjur af eignum sem átti ekki að færa

Finnski bankasérfræðingurinn Kaarlo Jännäri hefur sagt áríðandi að ljúka uppgjöri nýju og gömlu bankanna. Hann flytur hér erindi hjá Samtökum fjármálafyrirtækja í maí.Fréttablaðið/GVA
Finnski bankasérfræðingurinn Kaarlo Jännäri hefur sagt áríðandi að ljúka uppgjöri nýju og gömlu bankanna. Hann flytur hér erindi hjá Samtökum fjármálafyrirtækja í maí.Fréttablaðið/GVA

Fjármálaeftirlitið birtir á mánudag ákvörðun sína um hversu langan frest stjórnvöld, skilanefndir og kröfuhafar gömlu bankanna fá til þess að ljúka uppgjöri vegna tilfærslu eigna milli nýju og gömlu bankanna.

Stefnt hefur verið að því að ljúka uppgjörinu fyrir mánaðamót, en fjármálaráðuneytið á í viðræðum við skilanefndir bankanna og ráðgefandi fyrirtæki Morgan Stanley og Hawkpoint. Á vettvangi kröfuhafa og skilanefnda stendur yfir áreiðanleikakönnun á verðmati eigna bankanna sem PriceWaterhouseCoopers (PWC) innti af hendi, en samkvæmt heimildum blaðsins er búist við að sú vinna haldi áfram út næstu viku.

Í punktum af fundi skilanefndar Kaupþings með fulltrúum kröfuhafa sem birtir hafa verið á vef nefndarinnar kemur fram að í virðismatsskýrslu PWC sé staðfest að færðar hafi verið yfir til nýju bankanna eignir sem betur hefðu átt heima í þrotabúum gömlu bankanna. Fyrr á árinu var upplýst að eignir hefðu í einhverjum tilvikum verið færðar aftur yfir í þrotabú gömlu bankanna, en á þeim tíma óttuðust sumir kröfuhafar að verið væri að skila verðlausum eignum.

Í punktum skilanefndar Kaupþings kemur fram að farið verði yfir allar færslur sem tengist slíkum eignum sem ekki hefði átt að flytja yfir og uppgjör leiðrétt á milli bankanna, en Fjármálaeftirlitið eigi eftir að staðfesta leiðréttingarnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×