Innlent

Fjörugur og góður dagur

Mikið fjör var á fæðingardeild Landspítalans í gærdag.
Mikið fjör var á fæðingardeild Landspítalans í gærdag.
Níu börn komu í heiminn á fimm tímum á Landspítalanum í gærmorgun sem er vel yfir meðaltali. Eins og venja er voru sex ljósmæður á vakt, fjórar á fæðingargangi og tvær í Hreiðrinu.

Allar fæðingarnar gengu vel, að sögn Guðrúnar Eggertsdóttur, yfirljósmóður á fæðingargangi, sem munar miklu þegar mikið er að gera. Þegar Fréttablaðið hafði samband um tvöleytið í gær voru ellefu börn fædd frá því að Þorláksmessa hófst á miðnætti og voru fjórar fæðingar í gangi. Það stefndi því í fjölda fæðinga umfram meðaltal sem eru um tíu fæðingar á sólarhring. „Þetta er fjörugur og góður dagur," segir Guðrún sem var létt í skapi þegar haft var samband. Guðrún segir ómögulegt að spá fyrir um hvernig hátíðardagarnir verði á fæðingardeildinni, oft sé rólegt á aðfangadag og jóladag en þó ekki alltaf.

Alls hafa fæðst 3.435 börn á árinu á Landspítalanum og Guðrún segist eiga von á 87 fæðingum miðað við áætlanir en reynslan sýni að þær séu gjarnan fleiri. Miðað við það munu yfir 3.500 börn koma í heiminn á Landspítalanum í ár sem er met en 3.479 fæddust þar í fyrra.

Á Akranesi var eitt Þorláksmessubarn komið í heiminn þegar Fréttablaðið hafði samband og sömuleiðis á Akureyri. Bæði Soffía Þórðardóttir, ljósmóðir á Akranesi, og Ingibjörg Jónsdóttir á Akureyri eiga von á fleiri börnum fyrir áramót en sögðu illmögulegt að spá til um komudaginn, þau kæmu bara þegar þau kæmu. - sbt




Fleiri fréttir

Sjá meira


×