Viðskipti innlent

Alcoa neitar spákaupmennsku með krónuna

Ál.
Ál.

Alcoa Fjarðarál sendi frá sér yfirlýsingu vegna umfjöllunar Fréttablaðsins um gjaldeyrisviðskipti fyrirtæksins á alþjóðlegum mörkuðum.

Í yfirlýsingunni segir að Alcoa hafi aldrei stundað spákaupmennsku með íslensku krónuna.

Þar segir ennfremur: „Alcoa Fjarðaál starfar í alþjóðlegu umhverfi, samkvæmt alþjóðlegum viðskiptasamningum og í nánu samráði við íslensk stjórnvöld, banka og raforkuframleiðendur."

Lesa má yfirlýsinguna í heild sinni hér fyrir neðan:

Vegna umfjöllunar fjölmiðla að undanförnu um gjaldeyrisviðskipti íslensku

álfyrirtækjanna með krónur vill Alcoa á Íslandi taka eftirfarandi fram:

Alcoa Fjarðaál starfar í alþjóðlegu umhverfi, samkvæmt alþjóðlegum viðskiptasamningum og í nánu samráði við íslensk stjórnvöld, banka og raforkuframleiðendur.

Milli Alcoa á Íslandi og ríkisvaldsins gildir sérstakur fjárfestingasamingur og hefur starfsemi fyrirtækisins frá upphafi verið í samræmi við hann. Engin breyting varð þar á við bankahrunið á Íslandi né heldur við gildistöku reglna Seðlabankans varðandi viðskipti með krónur.

Alcoa Fjarðaál hefur farið í einu og öllu eftir þeim reglum eins og bankinn getur staðfest. Frá upphafi starfsemi á Íslandi hefur fyrirtækið aldrei stundað spákaupmennsku með íslensku krónuna af neinu tagi.

Alcoa á Íslandi hefur frá upphafi haft reglulegt samráð við Seðlabanka Íslands um tilhögun gjaldeyrisviðskipta sinna. Í vor var byrjað að ræða við bankann um að færa þau í auknum mæli til landsins.

Stjórnendur Alcoa á Íslandi áttu fyrir helgina fund með seðlabankastjóra og fleiri stjórnendum bankans, þar sem Alcoa bauðst til að færa öll viðskipti sín með krónur til landsins.

Alcoa er fjölþjóðlegt almenningshlutafélag og upplýsingar um rekstur þess eru háðar alþjóðlegum reglum um kauphallarviðskipti.

Af þeirri ástæðu getur fyrirtækið ekki veitt opinberlega upplýsingar um gjaldeyrisviðskipti sín öðrum en þeim sem lög kveða á um.


Tengdar fréttir

Milljarða gróði álfyrirtækja af gjaldeyrisbraski

Alcoa Fjarðaál og Alcan á Íslandi hafa stundað viðskipti með krónur erlendis. Viðskiptin gætu skilað fyrir­tækjunum 1,65 milljörðum króna í hagnað á ársgrundvelli. Viðskiptin geta seinkað styrkingu krónunnar. Um lögleg viðskipti er að ræða en Seðlabankastjóri segir hins vegar að undanþágur séu ekki ætlaðar til að fyrirtæki hagnist á þeim.

Álfyrirtæki braska með krónuna

Tvö af þremur álfyrirtækjum hérlendis stunda viðskipti með krónur á erlendum mörkuðum. Fyrirtæki sem stunda þessi viðskipti geta hagnast á misræmi milli opinbers gengis Seðlabanka Íslands og gengis krónunnar á markaði í Evrópu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×