Viðskipti innlent

Ástandið á fasteignamarkaðinum viðvarandi næstu misserin

Greining Íslandsbanka segir að útlit sé fyrir að ástandið á fasteignamarkaðinum verði viðvarandi næstu misserin þar sem byggingarkostnaður mun hækka, verð íbúðarhúsnæðis lækka og draga mun úr nýfjárfestingum.

Fjallað er um hækkun byggingarvísitölunnar í Morgunkorni greiningarinnar en byggingarkostnaður hækkaði um 0,6% á milli maí og júní samkvæmt vísitölu byggingarkostnaðar sem Hagstofan birti í morgun.

Hefur byggingarkostnaður þá hækkað um 11,7% á síðustu tólf mánuðum. Á sama tíma hefur húsnæðisverð lækkað um 10,3%.

Það hefur því dregið talsvert úr arðsemi þess að byggja á síðustu misserum en það var orðið einkennandi fyrir húsnæðismarkaðinn þegar uppsveiflan náði toppi í lok árs 2007 hvað nýbyggingar á húsnæðismarkaði voru margar og langt umfram hina árlegu þörf fyrir nýjar íbúðir í landinu.

Nú hefur dregið verulega úr þessum framkvæmdum en á fyrsta ársfjórðungi þessa árs var fjárfesting í íbúðarhúsnæði 50% minni en á sama ársfjórðungi í fyrra, reiknað á föstu verði.

Sölutregða hefur verið talsverð á íbúðarmarkaði og talsvert óselt af nýju íbúðarhúsnæði á markaðinum. Erfið fjárhagsleg staða heimilanna ásamt dökku útliti í efnahagsmálum heldur aftur af eftirspurninni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×