Innlent

Brýnt að ræða öryggismál Reykjavíkurflugvallar

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík.
Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík. Mynd/Daníel Rúnarsson
„Þeirri spurningu þarf að svara hvort þær breytingar sem fyrirhugaðar eru á starfsemi slökkviliðs á Reykjavíkurflugvelli ógni öryggi vallarins. Þar hefur verið sagt upp samningi við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sem þýðir að óbreyttu uppsagnir 20 slökkviliðsmanna," segir í fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar sem lögð var fram á fundi ráðsins í dag.

Slökkviliðsmenn á vegum vegum slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins hafa verið á flugvellinum síðustu ár. Flugstoðir ohf. hafa hins vegar sagt upp samningnum við slökkviliðið og munu ætla að búa til sinn eigin viðbragðshóp í staðinn. Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri sagðist í samtali við Fréttablaðið fyrir skömmu óttast skert öryggi á Reykjavíkurflugvelli. Hann hefur áhyggjur af því að ekki verði ráðnir menn með lögboða menntun til að sinna brunavörnum á flugvellinum.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar ítrekuðu í dag fyrra beiðni sína um að öryggismál á Reykjavíkurflugvelli verði sett á dagskrá borgarráðs. Þeim er ekki kunnugt um hvort áform um hvað eigi að koma í staðinn hafi verið kynnt borgaryfirvöldum.

„Þótt flugvöllurinn virðist hafa í hyggju að setja upp einhvers konar viðbragðshóp vaknar sú spurning hvort í raun eigi ekki að reiða sig á viðbúnað hins raunverulega Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Munurinn felist aðeins í því að greiða ekki fyrir þann viðbúnað sem nauðsynlegur er vegna reksturs flugvallar inni í miðri borg," segir í bókun Samfylkingarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×