Viðskipti innlent

Kreppan hefur áhrif á verð moldarkofa í Gíneu

Þessi lúxusíbúð í London er vart sambærileg við kofana í Gíneu, þó fer "fasteignaverð" þar lækkandi eins og á vesturlöndum.
Þessi lúxusíbúð í London er vart sambærileg við kofana í Gíneu, þó fer "fasteignaverð" þar lækkandi eins og á vesturlöndum.

Það er ekki einungis á Íslandi sem efnahagslægðin í heiminum skýtur niður fæti sínum af fullum þunga en lækkandi fasteignaverð á vesturlöndum teygir anga sína alla leið til vestur-Afríku ríkisins Gíneu. Þar í landi er lítið fjallaþorp, Nionsomoridou, sem notið hefur góðærisins undanfarin ár. Leiguverð á litlum gluggalausum moldarkofum með stráþaki hefur fallið úr jafngildi 20 bandaríkjadala niður í 6,5 dali á mánuði. Hagsjá Landsbankans greindi frá þessu úr vefútgáfu Wall Street Journal.

Í margar aldir var engin hætta á því að húsnæðismarkaðurinn í Nionsomoridou gæti hrunið, því hann var ekki til staðar. Ef karlmaður kvæntist, eignaðist börn og þurfti meira pláss fyrir fjölskylduna, þá komu ættingjar hans honum til hjálpar og „hentu upp" einum kofa við hliðina á kofa fjölskyldunnar á þorpslandinu sem var í eigu allra þorpsbúanna.

Þorpið er staðsett upp til fjalla, sem hafa að geyma gnótt af gulli, demöntum og síðast en ekki síst eru þar einar mestu auðlindir heimsins af járngrýti, fór ekki varhluta af hrávöruverðsbólunni fyrir nokkrum árum. Námarisinn Rio Tinto tilkynnti fyrir þremur árum að hann hefði fengið leyfi frá yfirvöldum Gíneu til að hefja námagröft á stað nálægt Niossomoridou og þyrfti þess vegna þúsundir starfsmanna, langt um meira magn en vinnumarkaður þessa litla þorps og nálægra þorpa gat boðið upp á. Gríðarlegt magn fólks flykktist því til staðarins í leit að vinnu, án þess að hafa fundið sér dvalarstað.

Framtakssamir þorpsbúar hófu því að leigja út kofana sína , fluttu til annarra ættingja í þorpinu og til varð vísir að leigumarkaði, sem hófst þó með vöruskiptum. Leigjendurnir greiddu fyrir leiguna með mat eða vinnuframlagi á hrísgrjóna- og baunaökrum leigusala sinna. Svo fór sem fór og leigjendurnir fóru að greiða leiguna með reiðufé og fór leigan hratt hækkandi. Hófu þá nokkrir frumkvöðlar í þorpinu þróunina upp á næsta stig og fóru að nýta leigutekjurnar til kaupa á byggingarefni í nýja kofa til að leigja út.

Eftirspurnin fór ört vaxandi og hækkaði leigan í allt að 20 dali á mánuði fyrir gluggalausan kofann sem hvorki hafði rafmagn né rennandi vatn og deildu í mörgum tilfellum þrír til fjórir námastarfsmenn kofa til að ná niður leiguverðinu.

Á síðari hluta 2008 náði hrávöruverðbólan svo hámarki og verð á hrávöru fór að falla með tilheyrandi áhrifum á námarisann. Það varð til þess að hann dró úr framleiðslu, fækkaði starfsmönnum og lagði til hliðar áform um stækkun námanna. Fóru því margir fyrrverandi starfsmannanna frá Nionsomoridou og fjöldinn allur af kofum sem byggðir höfðu verið urðu mannlausir og eigendur þeirra fengu engar leigutekjur af þeim. Leigan féll því nokkuð hratt er nú komin niður í andvirði 6,5 dala á mánuði.

Þrátt fyrir það er engan bilbug að finna á moldarkofasmiðnum Lounceny Bamba, en hann ætlar að reisa 50 kofa fyrir árið 2010 og er þess fullviss að námarisinn muni fljótt aftur byrja vinnslu í fjallinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×