Viðskipti innlent

Skuldabréfin aftur í tísku

Þórður Friðjónsson
Þórður Friðjónsson

„Skuldabréfamarkaðurinn er kominn í viðunandi horf þegar horft er til veltu," segir Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar. Hann segir að veltan á skuldabréfamarkaði sé orðin mjög svipuð og hún var árið 2007, sem sé mikilvægt skref í enduruppbyggingu á fjármálamörkuðunum hér á landi.

Velta á skuldabréfamarkaði hefur aukist töluvert að undanförnu og hefur verið 13,5 milljarðar á viku að meðaltali í júní. Fram að þeim tíma var meðalvelta 8,8 milljarðar á viku. Vikan sem leið var sú veltumesta á árinu og nam veltan 15,7 milljörðum.

Þórður segir að margir þættir stuðli að því að markaðurinn sé að lifna við. Hann nefnir að gerðir hafi verið nýir samningar við fimm aðila um viðskiptavakt á þessum markaði í byrjun mánaðarins. Viðskiptavakarnir eru Kaupþing, Landsbankinn, Íslandsbanki, Saga Capital og MP banki. Þórður greinir jafnframt frá því að undirritaður hafi verið samningur við Íbúðalánasjóð í gær, sem eigi eflaust eftir að skila sér í aukinni veltu á næstu vikum.

Þórður gerir hins vegar ekki ráð fyrir að hlutabréfamarkaðurinn muni lifna við fyrr en eftir áramót en það sé háð því hvernig endurskipulagning bankanna gangi fyrir sig.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×