Lífið

Það vill enginn vera með hægðatregðu á kjördag

Sölvi Fannar og Fríða Rún ráðleggja frambjóðendunum að halla sér frekar að kolvetnum í stað prótíns, skynsamlegast sé þó að blanda þessu tvennu saman. Vatn gæti leikið lykilhluverk á kjördag.
Sölvi Fannar og Fríða Rún ráðleggja frambjóðendunum að halla sér frekar að kolvetnum í stað prótíns, skynsamlegast sé þó að blanda þessu tvennu saman. Vatn gæti leikið lykilhluverk á kjördag.

Á morgun verður gengið til kosninga í einum sögulegustu alþingiskosningum síðari tíma. Mikið álag hefur verið á frambjóðendum stjórnmálaflokkanna og má reikna með að taugarnar verði þandar til hins ýtrasta þegar úrslit taka að berast. Þeir geta þó létt undir með sér með því að borða rétt.

„Það er mjög mikilvægt að skipuleggja máltíðir yfir daginn, þær þurfa að vera á þriggja til fjögurra tíma fresti. Menn geta jafnvel látið farsímann hringja til að minna sig á hvenær maður eigi að borða," segir Sölvi Fannar Viðarsson hjá Heilsuráðgjöf. Hann telur jafnframt að menn eigi að setja það niður fyrir sig hvenær þeir ætli að hafa kyrrðarstund með sjálfum sér yfir daginn þar sem þeir geti farið yfir það með sjálfum sér hvort þeir séu á réttri leið. „Af því tilefni er kannski gott að rifja upp gamalt máltæki, að ef þú hittir tvo fýlupúka á sama stað, kynntu þá fyrir hvor öðrum og taktu til fótanna, andlegur undirbúningur er nefnilega ekkert síður mikilvægur en sá líkamlegi," útskýrir Sölvi og líkir álagi á frambjóðendur við það þegar íþróttamenn takast á við stórviðburði á sínum ferli.

En þá að heppilega mataræðinu. Fríða Rún Þórðardóttir næringarsérfræðingur gefur frambjóðendum upp tvenns konar morgunverð, mjög góða, sem þeir ættu að hafa í huga þegar þeir vakna á kjördag. „Annars vegar er það hafragrautur með einni til tveimur matskeiðum af sólblómafræjum. Hins vegar gæti það líka verið Cheerios eða hafrakoddar með undanrennu eða léttmjólk." Sölvi tekur undir þetta en bendir jafnframt á að dagurinn fyrir kosningar sé ekkert síður mikilvægur. „Menn eiga að borða þá nægjanlega mikið af kolvetnum og hafa matinn skynsamlega samansettan. Menn mega heldur ekki gleyma góðum svefni sem er algjör lífsnauðsyn, fá sér flóaða mjólk og hunang áður en þeir leggjast á koddann og gefa sér jafnvel fimm mínútur til að stilla sig aðeins andlega," ráðleggur Sölvi.

Hann bendir jafnframt á að frambjóðendur skyldu hafa gullna reglu í huga; að drekka jafnmikið af vatni og þeir drekka kaffi og borða grófa fæðu og kornmeti. „Þetta er gott fyrir hægðirnar því ég reikna með því að enginn vilji vera með hægðatregðu á kjördag," segir Sölvi. Hann bendir jafnframt á að rétt fæði geti haft mikil áhrif á taugarnar, sé fæðan vitlaust samansett geti menn orðið taugatrekktari en þeir þyrftu að vera. Bæði Sölvi og Fríða ráðleggja frambjóðendunum að forðast mjög prótínríkan mat svo sem fisk, kjöt, egg, mjólk og baunir. „Þetta getur skipt gríðarlega miklu máli því svona hlutir hafa áhrif á sýrustig líkamans, menn geta orðið andfúlir og svo framvegis. Annars er mjög gott að hafa einhverja ferska mintu í vasanum til að forðast andremmu," segir Sölvi.

Og hann bætir við að ef menn freistist til að borða skyndibita á borð við Sóma-samloku sé gott ráð að fá sér ávöxt með. „Annars getur blóðsykur farið á flug og þá fyrst verða taugarnar vandamál."

freyrgigja@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.