Viðskipti innlent

Nýjar reglur hjá Seðlabankanum

Gunnar Örn Jónsson skrifar
Undanfarnar vikur hefur verið unnið að endurskoðun á reglum um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands. Nýjar reglur munu taka gildi á morgun en tilgangur með endurskoðun reglnanna er að skýra betur þá fyrirgreiðslu sem Seðlabankinn veitir fjármálafyrirtækjum.

Nýju reglurnar eru í grundvallaratriðum svipaðar og eldri reglur.

Tvær breytingar eru þó frá eldri reglum sem nauðsynlegt er að skýra sérstaklega. Í fyrsta lagi eru settar strangari reglur um þær tryggingar sem eru hæfar í viðskiptum við Seðlabankann. Hæfar tryggingar í viðskiptum við Seðlabanka Íslands eru nú einkum íbúðabréf Íbúðalánasjóðs, ríkisbréf og ríkisvíxlar. Í öðru lagi eru í nýju reglunum ákvæði sem veita Seðlabankanum víðtækari og skýrari heimildir til stýra lausu fé á markaði.

„Bankar gátu fengið veðlán einu sinni í viku, þeir fengu þá fjárhæð sem þeir þurftu svo framarlega sem Seðlabankinn taldi að þau veð sem lágu að baki væru traust. Með þessum nýju reglum er Seðlabankinn að reyna að tempra sveiflur krónumagns í umferð. Við erum hreinlega að þrengja veðgrunninn þar sem við tökum takmarkaðri veð en áður. Við erum sem sagt að færa okkur í aðeins stýfara umhverfi en áður ríkti," segir Gerður Ísberg hjá Seðlabankanum í viðtali við Vísi.

Gerður segir ennfremur að Seðlabankinn hafi einfaldlega þurft að vera með betri lausafjárstýringu. Gömlu lögin gáfu bönkunum færi á að leggja ýmiss konar veð sem tryggingu fyrir lánum Seðlabankans en nú tekur Seðlabankinn einungis við veðum í íslenskum krónum.

Það þýðir meðal annars, að ekki er lengur hægt að leggja að veði lán eins og sértryggð skuldabréf (e. covered bonds) sem gömlu viðskiptabankarnir áttu í miklum mæli og Seðlabankinn tók að veði gegn fyrirgreiðslu til bankanna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×