Handbolti

Þýskur handboltamaður lést í landsleik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kai Wandschneider, þjálfari Dormagen, og leikmenn á varamannabekk liðsins.
Kai Wandschneider, þjálfari Dormagen, og leikmenn á varamannabekk liðsins. Nordic Photos / Bongarts

Sebastian Faisst, leikmaður Dormagen, lést í gærkvöldi í leik með þýska U-21 landsliðinu gegn því svissneska. Hann var tvítugur að aldri og hefði haldið upp á 21 árs afmæli sitt á laugardaginn.

Faisst þótti með efnilegri leikmönnum Þýskalands og var til að mynda í þýska landsliðinu sem mætti því íslenska ytra í tveimur æfingaleikjum í haust.

Faisst var að hlaupa aftur í vörn á 34. mínútu leiksins er hann féll skyndilega í gólfið, án þess að nokkur kæmi við hann. Læknar reyndu lífgunartilraunir en án árangurs. Kurt Steuer, læknir landsliðsins, taldi að hann hafi fengið heilablæðingu.

Leiknum var hætt þá og þegar og fengu leikmenn og aðrir sem á þurftu að halda áfallahjálp.

„Ég bara trúi þessu ekki," sagði Uli Derad, framkvæmdarstjóri Dormagen. „Við syrgjum nú leikmann og félaga og samhryggjumst mjög með aðstandendum hans. Það er erfitt að finna réttu orðin."

Faisst var í U-21 liði Þýskalands sem varð í öðru sæti á EM í Rúmeníu í fyrra. Hann skoraði fyrsta mark þýska landsliðsins í leiknum gegn Sviss í gær.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×