Viðskipti innlent

Skuldir veikja gengi krónunnar

Landsbankinn skuldar Evrópska seðlabankanum 180 milljarða króna.
Landsbankinn skuldar Evrópska seðlabankanum 180 milljarða króna. Mynd/Vilhelm

Viðræður eiga sér nú stað á milli Seðlabanka Íslands og Seðlabanka Evrópu í Lúxemborg vegna skuldar Landsbankans upp á einn milljarð evra, jafnvirði tæpra 180 milljarða íslenskra króna.

Skuldin, sem kallast Avens, er tilkomin vegna endurhverfra viðskipta Landsbankans í Lúxemborg við Evrópska seðlabankann um mitt síðasta ár.

Veð á bak við skuldina eru íslensk íbúðabréf og flokkast því til krónueigna erlendra aðila hér. Ekki liggur fyrir upphæð vaxtagreiðslna vegna skuldarinnar við Evrópska seðlabankann. En vaxtagreiðslur vegna krónueigna erlendra aðila hér eru meðal helstu ástæðna fyrir veikingu krónunnar upp á síðkastið.

Þetta er ekki eina skuld Landsbankans við Evrópska seðlabankann.

Hin skuldin hljóðar upp á 830 milljónir evra, jafnvirði 140 milljarða króna. Skuldin, sem nefnist Betula, er frá byrjun síðasta árs. Hún er sömuleiðis tilkomin vegna endurhverfra viðskipta Landsbankans við þann evrópska þegar harðna fór á dalnum á alþjóðlegum lánsfjármörkuðum.

Veð á bak við skuldina eru safn úrvalseigna Landsbankans í Bretlandi og hlutabréf í evrópskum fjármálafyrirtækjum.

Lánapakkinn fékk hæstu einkunn hjá alþjóðlega matsfyrirtækinu Fitch Ratings á sínum tíma en var færður niður um tólf flokka eftir að skilanefnd Landsbankans tók lyklavöldin í bankanum í október í fyrra.

Viðmælendur Fréttablaðsins segja erfitt að geta sér til um hvað sé orðið eign Evrópska seðlabankans í Lúxemborg og hvað tilheyri enn eignasafni Landsbankans vegna óvissunnar um afdrif veðanna.

Glitnir í Lúxemborg skuldaði Evrópska seðlabankanum á annan milljarð evra vegna endurhverfra viðskipta eftir bankahrunið í haust. Samningar náðust um greiðslu skuldarinnar í mars og fengu lánar­drottnar Glitnis sitt að fullu, að sögn Árna Tómas­sonar.

Samningarnir munu hafa tekist vel og munu aðrar skilanefndir stefna á að ná svipuðum samningum við Evrópska seðlabankann, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×