Viðskipti innlent

Seðlabankinn bakvið þriðjung af gjaldeyrissölunni

Hrein sala Seðlabankans á gjaldeyri á markaði nam 1,3 milljörðum kr. í janúar og samsvarar það tæpum þriðjungi af heildarveltu á millibankamarkaði með gjaldeyri í mánuðinum.

Greining Glitnis fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að þetta hlutfall var áþekkt í desember, en þá nam hrein sala bankans á gjaldeyri 3,4 milljörðum kr. af 10,5 milljarða kr. heildarveltu.

Seðlabankinn hefur þó ágætt borð fyrir báru þrátt fyrir söluna í janúar þar sem gjaldeyrisforði hans nam 429 milljörðum kr. um áramótin. Einnig mun vopnabúr bankans væntanlega gildna frekar á næstunni þegar lán nágrannaþjóða auk næstu útborgunar á láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins skila sér í gjaldeyrisforðann.

Velta á millibankamarkaði eftir bankahrunið er raunar aðeins lítið brot af veltunni eins og hún var að jafnaði misserin fyrir hrun. Fyrstu níu mánuði ársins var veltan að jafnaði 813 milljarðar kr. á mánuði. Dagsvelta fyrir hrun var þannig að jafnaði u.þ.b. fimmfalt meiri en mánaðarveltan hefur verið að meðaltali síðan viðskipti á millibankamarkaði hófust að nýju í desemberbyrjun.

Vert er þó að hafa í huga að millibankamarkaður endurspeglar aðeins hluta gjaldeyrisviðskipta þar sem bankar og fjármálastofnanir leitast við að leiða saman kaupendur og seljendur án þess að leita á millibankamarkaðinn. Þá daga sem jafnvægi er milli kaupenda og seljenda getur því verið afar takmörkuð velta á millibankamarkaði en gjaldeyrisviðskipti í heild þó verið lífleg.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×