Viðskipti innlent

Verðbólga hækkar í júní en fer síðan lækkandi

Frá höfuðstöðvum Kaupþings.
Frá höfuðstöðvum Kaupþings.
Greining Kaupþings spáir 1,1% hækkun vísitölu neysluverðs í júní og hækkar þá tólf mánaða verðbólga upp í 11,9%, úr 11,7% mánuðinn á undan. Tólf mánaða verðbólga mun hinsvegar lækka á ný í júlí og halda áfram að lækka það sem eftir lifir árs, jafnvel þótt krónan haldi áfram að veikjast. Verðlag án húsnæðis hækkar um 1,2%. Þetta kemur fram í markaðspunktum Kaupþings.

Ástæðan fyrir verðbólguspánni á rætur sínar að rekja til veikingu krónunnar, hækkun opinberra gjalda og hærra heimsmarkaðsverði á eldsneyti. Þótt krónan veikist aðeins um fáein prósent milli mánaða verður ekki framhjá því horft að gengisvísitalan hefur hækkað um 50% síðastliðna tólf mánuði og um 20% á síðustu þremur mánuðum. Núverandi verðlagning í landinu hefur að einhverju leyti byggt á væntingum um að gengisstyrking krónunnar á fyrstu mánuðum ársins yrði varanleg, sú styrking var hinsvegar aðeins tímabundin og er verðlagning í auknum mæli að taka mið af þeirri staðreynd.

Af einstökum undirliðum vísitölunnar má nefna eftirfarandi:

Áfengi og tóbak munu hækka vísitölu neysluverðs um 0,25-0,30% vegna hækkunar opinberra gjalda á þessa liði.

Eldsneyti hækkar vísitöluna um 0,25% í júní, einkum vegna hækkunar á heimsmarkaðsverði. Í júlí má búast við um 0,3% hækkun vísitölunnar í viðbót vegna gjaldahækkunar hins opinbera á eldsneyti.

Gert er ráð fyrir að húsnæðisliðurinn hafi 0,1% áhrif til lækkunar vísitölunnar að þessu sinni. Eins og reynsla síðustu mánaða sýnir er þessi liður gríðarlega sveiflukenndur og hafa þessar sveiflur ráðið lang mestu um heildarniðurstöðu verðlagsmælingar Hagstofunnar að undanförnu.

Gert er ráð fyrir um 1% hækkun matvöruverðs í júní og að liðurinn hækki því vísitöluna um u.þ.b. 0,15%. Þetta er álíka hækkun og í maí en þá hækkaði matvöruverð á ný eftir að hafa lækkað tvo mánuði þar á undan.



Auknir neysluskattar ríkisins hafa áhrif á verðlag


Hluti af aðgerðum ríkistjórnar til að auka tekjur ríkissjóðs er að færa ákveðna matvöruflokka upp um virðisaukaskattsþrep. Talið er að aðgerðirnar, sem áætlað er að skili 2,5 milljörðum króna á ári í ríkiskassann, muni valda 0,25% hækkun vísitölu neysluverðs. Þessar breytingar taka gildi 1. september nk. og munu því koma fram í septembermælingu vísitölu neysluverðs.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×