Handbolti

Karabatic ánægður með Alfreð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nikola Karabatic, leikmaður Kiel.
Nikola Karabatic, leikmaður Kiel. Nordic Photos / AFP

Nikola Karabatic, leikmaður þýska úrvalsdeildarliðsins Kiel, segir að það væri góð lausn fyrir félagið ef Alfreð Gíslason myndi taka við þjálfun liðsins.

Karabatic er samningsbundinn Kiel til ársins 2012 og ætlar að efna samninginn, sama hver verður ráðinn þjálfari.

„Ég er í Kiel og verð áfram í Kiel. Mér líkar afar vel við leikmennina og þar eru mínir vinir. Það gerði útslagið á endanum," sagði Karabatic sem er 24 ára gamall.

Hann segist þó sjá mjög eftir fráfarandi þjálfaranum, Noka Serdarusic. „Það er mikil synd að hann þurfi að kveðja á þessum nótum eftir að hafa unnið til svo mikils með félaginu. Það átti hann ekki skilið," sagði Karabatic.

„Ég hef oft sagt að hann sé einn sá besti þjálfari heims, ef ekki sá besti. Hann hefur líka gengið mér í föðurstað og ávallt stutt mig en jafnframt verið harður við mig. Þannig á það líka að vera."

Hann myndi þó taka nýjum þjálfara opnum örmum. „Ég ber mikla virðingu fyrir Alfreð. Hann hefur unnið til mikils, bæði með Magdeburg og Gummersbach. Það væri góð lausn fyrir félagið að fá hann."

Þýskir fjölmiðlar segja að Kiel þurfi að reiða meira en eina milljón evra af hendi fyrir að leysa annars vegar Alfreð, sem er samningsbundinn Gummersbach til 2010, undan samningi og hins vegar Serdarusic. Sá síðarnefndi var samningsbundinn Kiel í eitt ár til viðbótar.




Tengdar fréttir

Skrifar Alfreð undir á þriðjudag?

Líklegt er að Alfreð Gíslason verði formlega kynntur sem nýr þjálfari Kiel á þriðjudag. Uwe Schwenker, framkvæmdarstjóri Kiel, sagði í dag að nýr þjálfari yrði að öllum líkindum kynntur á þriðjudag.

Kiel sigursælasta lið Þýskalands

Eins og greint var frá í morgun er Alfreð Gíslason efstur á óskalista þýska liðsins Kiel. Þetta er gríðarlegur heiður fyrir Alfreð enda er Kiel eitt allra stærsta handboltafélag heims.

Alfreð að taka við Kiel?

Fjölmiðlar í Þýskalandi fullyrða að Alfreð Gíslason sé að ná samningum við Þýskalandsmeistara Kiel um að verða næsti þjálfari liðsins. Þetta kemur fram á vefsíðunni handball-world.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×