Viðskipti innlent

Íslendingum nokkrar leiðir færar í myntmálum

„Þetta er svipað og maður hefði sett farsímann sinn í þvottavélina og stillt hana á suðuþvott,“ sagði Þórólfur Matthíasson hagfræðingur þegar Sigmundur Ernir Rúnarsson spurði hann hvort útséð væri með krónuna en Þórólfur var gestur í Mannamáli Sigmundar í kvöld.

 

Þórólfur sagði Íslendingum fært að fara nokkrar leiðir í myntmálum sínum. Hægt væri að halda áfram með krónuna og hafa hana á föstu gengi, við gætum haldið áfram með einhvers konar fljótandi gengi, haldið áfram með verðbólgumarkmið eða leitað út fyrir landsteinana.

 

Ef menn festu gengið yrðu menn að festa það tiltölulega hátt. Þetta sagði Þórólfur hafa gerst í Þýskalandi á sínum tíma og hefði ekkert gott haft í för með sér en verið gert af pólitískum ástæðum. „Ég mun ekki eiga minn sparnað í íslenskum krónum framar," sagði Þórólfur og taldi sig hafa lært sína lexíu.

 

Þegar Sigmundur innti hann álits á því hvort hann teldi mögulegt að íslenska krónan yrði tengd þeirri norsku svaraði hann því til að það yrði þá að vera á grundvelli samkomulags milli ríkisstjórna landanna og kannski væri eðlilegast að við semdum við ESB um að við tækjum upp evru strax og fengjum eins konar neyðaraðgang af því að við værum öðruvísi stödd en nokkur þjóð hefði nokkurn tímann verið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×