Viðskipti erlent

IMF vill selja 400 tonn af gulli til að laga hallarekstur

Stjórn Alþjóðlega gjaldeyrisvarasjóðsins hefur samþykkt áætlun um endurskipulagningu sjóðsins. Felur hún meðal annars í sér sölu á 400 tonnum af gulli en sjóðurinn á töluverðar gullbirgðir

Ísland var nýlega nefnt í tengslum við Alþjóðlega gjaldeyrisvarasjóðinn en í grein sem Edmund Conway fjármálaritstjóri breska blaðsins Daily Telegraph skrifaði um helgina komu fram vangaveltur um að Alþjóðlegi gjaldeyrisvarasjóðurinn muni þurfa að bjarga Íslandi frá efnahagshruni. Yrði þetta þá í fyrsta sinn í rúmlega 30 ár sem sjóðurinn þarf að koma þróuðu landi til aðstoðar. Áður þurfti sjóðurinn að hlaupa undir bagga með bresku ríkisstjórninni vegna mikilla efnahagsörðugleika landsins á áttundan áratug síðustu aldar.

Salan á 400 tonnum af gulli sjóðsins þarf samþykki bandaríska þingsins og jafnvel lagabreytingar í mörgum af þeim 184 þjóðum sem aðild eiga að sjóðnum.

Með sölunni er ætlunin að eyða 400 milljón dollara halla sem er á sjóðnum þessa stundina. Áætlun stjórnar sjóðsins gerir einnig ráð fyrir að draga mjög úr rekstrarkostnaði sjóðsins eða um 100 milljónir dollara á næstu þremur árum. Þar á meðal er áætlað að segja upp um 100 starfsmönnum sjóðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×